Sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hf. hlaut Íslensku þekkingarverðlaun Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í ár. Við val á þekkingarfyrirtæki ársins 2018 var horft til þeirra fyrirtækja sem eru leiðandi í stafrænum lausnum og hafa með nýsköpun í tækni bætt rekstrarumhverfi fyrirtækisins, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars að Vísir hafi náð eftirtektarverðum árangri í rekstri sínum og aukið framleiðni og skilvirkni með innleiðingu og þróun stafrænna lausna. Vísir hafi með innleiðingu stafrænna lausna náð hagræðingu í rekstri með virkri stýringu flotans og með nýtingarauka og hærra hlutfalli í betur borgandi afurðir. Tæknin opni þann möguleika að Vísir klári framleiðsluferlið beint í neytendapakkningar sem sparar milliflutninga og milliumbúðir og það sé stórt skref í átt að minnkun kolefnisspors sjávarútvegsins.
Vísir hf. var eitt fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið að nýta sér Hafsýnar lausnina og undanfara hennar. Allt frá árinu 2004 hefur Vísir hf skráð upplýsingar um staðsetningar lagna, afla og beitunotkun allra skipa sinna. Frá árinu 2007 hafa gögn úr landvinnslu, eins og stærðardreifing verið samkeyrð með aflagögnun. Fyrirtækið býr því yfir gríðarlega umfangsmiklum upplýsingum um veiðar og ástand nytjastofna í kringum Ísland sem það hefur markvisst nýtt til að auka hagræði við veiðar og vinnslu.
Við hjá Hafsýn óskum Vísis-fólki til hamingju og þökkum fyrir samstarfið á liðnum árum og hlökkum til frekari samstarfs í framtíðinni.