Þorbjörn hf. er einn af elstu viðskiptavinum Hafsýnar og hefur safnað gögnum um veiðislóðir, afla og úthald í gagnagrunn allt frá árinu 2006. Fyrirtækið byggir meginstarfsemi sína á aldagamalli þekkingu íslensks sjávarútvegs en hefur einnig verið leiðandi í nýsköpun, bæði í eigin fyrirtæki og með þátttöku í stofnun nýsköpunarfyrirtækja. Þorbjörn hf. hefur fylgt þeirri hugmyndafræði að finna aðferðir til að fullnýta sjávarfang í sinni framleiðslu með sjálfbærni að leiðarljósi.
Við hittum Hrannar Jón Emilsson, útgerðarstjóra línuskipa yfir kaffibolla í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Grindavik en Hrannar notar Hafsýn í sínu starfi.
„Við leggjum mikla áherslu á að veita stöðugt framboð af hágæðavöru, hámarka virði hráefnisins og stunda ábyrgar fiskveiðar. Hafsýn er eitt af þeim verkfærum sem við notum daglega og gerir útgerð og vinnslu kleift að fylgjast með og stýra veiðunum til þess að ná þessum markmiðum.
Hvernig nýtið þið Hafsýn?
„Það sem mér finnst þægilegast er að geta fengið nýjustu upplýsingar um afla og úthald skipanna beint í snjallsíma sem gerir mér kleift að fylgjast vel með. Í sumum tilfellum getum við beint skipunum okkar á þær veiðislóðir sem eru líklegastar að skila sem heppilegustu hráefni. Hafsýn er sömuleiðis mikilvægt tól fyrir vinnsluna. Þeir sem skipuleggja framleiðsluna í landi vilja hafa sem nákvæmastar upplýsingar um hvað er væntanlegt í hús og því skiptir miklu máli fyrir vinnsluna að fá uppfærðar aflaupplýsingar, jafnvel oft á dag.
Hvað með rekjanleika?
„Við höfum merkt umbúðir á saltfiskafurðir fyrirtækisins með korti sem sýnir staðsetninguna sem fiskurinn var veiddur á. Þessar upplýsingar eru sóttar í gegnum Hafsýn og eru ein leið til að aðgreina vörurnar á markaði og sýna fram á að hráefnið er rekjanlegt á íslenskt hafsvæði.
Á hverjum kassa frá okkur er mynd af Íslandi, veiðihólf og dagsetning. Sem sagt helstu upplýsingar um vöruna, svo sem veiðidagur, staðsetning, skip, lotunúmer og mynd af Íslandi. Með lotunúmeri er hægt að rekja vöruna í gegnum alla virðiskeðjuna, frá veiðum og áfram.
Þetta skiptir okkar viðskiptavini máli. Markaðurinn kallar eftir þessu og fleiri hafa tekið þetta upp, en við höfum lent í því að óskað sé eftir fiski úr tilteknu veiðihólfi því að viðskiptavinir fengu áður fisk þaðan. Það er skiljanlega ekki alltaf framkvæmanlegt. Við leggjum áherslu á, með vottun upprunamerkis ábyrgra fiskveiða, að við séum að tryggja kaupendum það að okkar fiskur komi úr veiðum á vottuðum veiðistofnum þar sem veiðum er stjórnað með ábyrgum hætti.“ .
Nú hafið þið notað Hafsýn lengi, vinnið þið mikið með gögnin?
„Við höfum notað Hafsýn lengi og söfnum meðal annars gögnum um afla og úthald. Þegar ég er að skoða fyrri veiðiferðir, til dæmis ákveðin veiðisvæði eða árstíma, er mjög auðvelt að skoða þær í vefgáttinni hjá Hafsýn. Áður fyrr voru útgerðarmenn bara með þessa vitneskju í kollinum, hvað veiddist hvar og á hvaða árstíma, en með nýrri kynslóð vilja menn hafa þessar upplýsingar aðgengilegar á einum stað. Almennt eru yngri mennirnir opnari við að samnýta þessar upplýsingar þannig að vitneskjan safnist upp, haldist innan fyrirtækisins og að auðvelt sé að miðla henni til þeirra starfsmanna sem þurfa á henni að halda. Það er gríðarlega mikil þekking sem myndast og hún er verðmæt.“
Eitthvað að lokum?
„Hafsýn og afladagbókin bara virkar. Ef eitthvað virkar ekki, þá sjaldan sem það er, þá sendum við bara inn athugasemd og því er kippt í lag hið snarasta. Allt gengur hratt og vel fyrir sig.“